Erlent

Danska fjölskyldan hefur það ágætt - Í haldi reyndra sjóræningja

Sjóræningjar. Myndin er úr safni.
Sjóræningjar. Myndin er úr safni.
Danska fjölskyldan, sem var handsömuð af sómölskum sjóræningjum á Indlandshafi í lok febrúar, hefur það gott eftir atvikum samkvæmt dönskum yfirvöldum. Öryggisfyrirtæki vinnur að því að fá þau laus.

Fjölskyldan var handsömuð á skútu sinni í lok febrúar en alls voru sjö um borð, þar af þrír unglingar á aldrinum 12 til 16 ára. Öryggisfyrirtæki, sem sérhæfir sig í samskiptum við sjóræningja í Sómalíu, komust í samband við þá og fengu staðfestingu um líðan áhafnarinnar. Meðal annars er reynt að semja um lausn fjölskyldunnar, en dönsk yfirvöld neita að taka þátt í þeim viðræðum.

Samkvæmt sérfræðingi, sem Jótlandspósturinn ræddi við, þá er áhöfn skútunnar í haldi reyndra sjóræningja sem er stjórnað af Osman Mahmoud.

Sérfræðingurinn segir það auka líkurnar á því að þeim verði sleppt ómeiddum, þar sem sjóræningjarnir vilja eingöngu lausnargjaldið.

Áhöfnin var handsömuð á leiðinni að Súez-skurðinum en þau sigldu beint í flasið á sjóræningjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×