Innlent

Fréttir af andláti evrunnar fjarstæðukenndar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgi Hjörvar segir að evran sé ekki dauð úr öllum æðum.
Helgi Hjörvar segir að evran sé ekki dauð úr öllum æðum. Mynd/ Vilhelm.
Þó að viðsjár sé í Evrópu og erfið viðfangsefni framundan, þá eru fréttir af andláti og útför evrunnar fjarri lagi, sagði Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar á Alþingi í morgun. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hann hvaða áhrif efnahagsþrengingarnar í Evrópu, nú þegar hugsanlega þyrfti að kljúfa Grikkland úr evrusamstarfinu, myndi hafa á Ísland. Hann spurði jafnframt hvernig Íslendingar gætu brugðist við.

Helgi Hjörvar benti á að evran væri mun sterkari nú en hún hefði verið fyrst þegar hún kom á markað. Hún hefði sveiflast nokkuð, en mun minna en króna. „Sem minnir á að evran í kreppu er stöðugri en íslenska krónan,“ sagði Helgi Hjörvar.

Helgi Hjörvar sagði að mikilvægt væri að bregðast við því sem væri að gerast í evruríkjunum. „Við byggjum upp öflugan gjaldeyrisforða eins og við höfum gert, tryggjum að hér sé nóg fé fyrir erlendar afborganir næstu árin, eins og við höfum gert. Og við lögfestum gjaldeyrishöft sem hér liggja fyrir þinginu og tryggjum þannig efnahagslegt öryggi í stað þess að koma í veg fyrir það með málþófi lang fram á nótt,“ sagði Helgi Hjörvar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×