Innlent

Vilja rjúpnaveiðar með óbreyttu sniði

Skotveiðifélag Íslands leggur til að veiðar á rjúpu í ár verði með sama sniði og síðustu ár. Félagið segir ofureinföldun að rekja sveiflur í rjúpnastofninum alfarið til skotveiði. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar benda til þess að rjúpnastofnin sé mun minni nú en fyrir áratugum. Auk þess komu talningar á stofninum í vor verr út en búist var við. Haustið 2010 var veiðistofninn áætlaður 850.000 fuglar, en er í ár metinn aðeins 350.000 fuglar. Þessar sveiflur í stofninum hafa ekki verið skýrðar með nákvæmum hætti, en umræðan hefur helst snúist um afrán fálka og skotveiði manna.

Skotveiðifélag Íslands segir fráleitt að gera ráð fyrir að áhrif skotveiði manna vegi eins þungt og haldið er fram. Fleiri þættir skipti máli og spili stóra rullu í sveiflum stofnsins. Þar má nefna veðurfar, sjúkdóma, sníkjudýr og afrán máva, kjóa, skúma, hrafna og jafnvel refa, en refastofninn ku vera í sögulegu hámarki um þessar mundir.

Því leggur félagið til að rjúpnaveiðar í ár verði með óbreyttu sniði og síðustu ár, en þær hafa undanfarið verið innan við 20%. Félagið hvetur jafnframt til þess að ráðist verði í frekari rannsóknir á þeim þáttum sem valdið geta sveiflum í stofninum. Að lokum vill félagið hvetja veiðimenn til að draga úr veiðum.

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, mun taka ákvörðun um framhald rjúpnaveiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×