Innlent

Læknar ekki fundið einkenni hjá fólki

Haraldur briem
Haraldur briem
„Við verðum að vita hvað er í gangi í dýrunum áður en við leggjum mat á mannfólkið,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir um niðurstöður úr sýnatökum úr mjólk og fituvef dýra. Þær ákvarða hvort íbúar á Ísafirði og nágrenni verði skoðaðir sérstaklega með tilliti til díoxínmengunar. Hann er bjartsýnn á að þess gerist ekki þörf.

Haraldur sat upplýsingafund í gær með fulltrúum Umhverfis- og Matvælastofnunar, Vinnueftirlitinu og Kristínu Ólafsdóttur, líf- og eiturefnafræðingi frá HÍ. Niðurstaða þess fundar var að fyrsta skref til að kanna umfang og áhrif díoxínmengunar væri að mæla díoxínmagn í búfjárafurðum og fóðri í námunda við sorpbrennsluna.

Matvælastofnun vinnur að slíkum mælingum en vænta má niðurstaðna úr þeim í lok janúar. Samkvæmt upplýsingum umhverfisráðuneytinu hafa læknar á Ísafirði ekki orðið varir við nein einkenni hjá fólki sem rekja má til þessarar mengunar.

„Það ber ekki á neinum einkennum enda er ekki við því búist. Það má sjá á mengunar­slysum erlendis að mannfólkið hefur mun meira þol gegn díoxíneitrun en dýr,“ segir Haraldur.

Hann segir að sem sóttvarnalæknir, sem komi að öllum málum sem varða lýðheilsu, líti hann díoxínmengun alvarlegum augum. Hann hvetur fólk hins vegar til þess að hafa ekki of miklar áhyggjur. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×