Erlent

Gaddafi býr sig undir ragnarök

Óli Tynes skrifar
Moammar Gaddafi.
Moammar Gaddafi.
Uppreisnarmenn í Libyu virðast hafa austurhluta landsins á sínu valdi og sækja nú inn í vesturhlutann. BBC fréttastofan segir að í borginni Benghazi standi fólk í biðröðum eftir að fá afhent skotvopn sem rænt hefur verið úr vopnabúrum lögreglu og hersins. Fólkið segist vera að búa sig undir það sem það kallar orrustuna um Tripoli. Allmargar hersveitir í austurhlutanum eru sagðar hafa gengið til liðs við uppreisnarmenn.

Fleiri vísbendingar eru um að herinn sé að snúa baki við Moammar Gaddafi. Þannig stukku tveir flugmenn úr flugvél sinni í fallhlífum og létu hana hrapa í eyðimörkinni frekar en gera loftárásir á óbreytta borgara. Fyrr í vikunni var tveim orrustuþotum lent á eynni Möltu, þar sem flugmenn þeirra vildu heldur ekki gera árásir á samborgara sína.

Þá hafa sendiherrar Libyu víða um heim sagt sig frá stjórn Gaddafis og ráðherrar og háttsettir embættismenn sagt af sér. Þeirra á meðal er innanríkisráðherra landsins.

Gaddafi er sagður hafa víggirt sig á heimili sínu í Trípólí umkringdur vopnuðum stuðningsmönnum. Skriðdrekar eru í úthverfum borgarinnar til þess að mæta uppreisnarmönnum þegar þeir láta sjá sig. Enginn veit á þessari stundu hvort skriðdrekarnir skjóta á uppreisnarmenn þegar til kemur, eða hvort hermennirnir ganga til liðs við þá.

Gaddafi hefur lýst uppreisnarmennina réttdræpa og segist sjálfur munu berjast til síðasta blóðdropa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×