„Það hafa margir strákar 18 ára og yngri farið til England og enginn þeirra hefur náð að leika svo mikið sem einn úrvalsdeildarleik," sagði Hjörvar Hafliðason í Sunnudagsmessunni á Stöð 2 sport 2 þar sem hann og Guðmundur Benediktsson veltu upp þeirri spurningu hvort ungir íslenskir fótboltamenn ættu yfir höfuð að fara til enskra liða. Alls voru 18 nöfn á þessum lista hjá þeim Guðmundi og Hjörvari.
Guðmundur Hilmarsson íþróttafréttamaður Morgunblaðsins var gestur þáttarins og hann sagði: „ Það er erfitt fyrir þessa stráka að fara til þessara stóru klúbba. Það er ofboðslegt nálarauga að sleppa þar í gegn. Það er erfitt að ætla sér að komast í svona lið," sagði Guðmundur m.a.
Hjörvar benti á þá staðreynd að þeir íslensku leikmenn sem hafi náð fótfestu í ensku úrvalsdeildinn hafi flestir verið búnir að öðlast reynslu úr öðrum atvinnumannadeildum áður en þeir fóru í úrvalsdeildina.