Erlent

Prestar grunaðir um barnaníð leystir frá störfum

Erkibiskup Fíladelfíu segist harma málið.
Erkibiskup Fíladelfíu segist harma málið. MYND/AP
Rúmlega tuttugu prestar í borginni Fíladelfíu í Bandaríkjunum voru leystir frá störfum í gær eftir að nöfn þeirra komu upp í víðtækri rannsókn á barnaníði innan kirkjunnar. Erkibiskupinn yfir Fíladelfíu segir að prestarnir, sem eru kaþólskir, hafi verið sendir í leyfi uns mál þeirra hafa verið rannsökuð.

Hann segist harmi sleginn yfir fregnunum og biður fórnarlömb prestanna innilegrar afsökunar. Rannsókn málsins hefur staðið yfir í tvö ár og fjórir prestar hafa verið formlega ákærðir, auk eins kennara við kaþólskan skóla. Við rannsóknina kom einnig í ljós að nefnd sem kirkjan skipaði árið 2005 og átti að rannsaka sömu mál, gerði lítið annað en að verja kirkjuna.

Alls eru 37 prestar sakaðir um kynferðisbrot í rannsóknarskýrslunni, 21 var settur í frí í gær, þrír fengu sömu boð í febrúar og fimm voru þegar farnir í frí af ýmsum ástæðum. Hinir átta verða ekki leystir frá störfum þar sem rannsóknin þykir hafa leitt í ljós að ekki þurfi að skoða mál þeirra frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×