Erlent

Herþota skotin niður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Herþota var skotin niður í borginni Benghazi í Líbíu í nótt þrátt fyrir að ríkisstjórn Líbíu hafi lýst yfir vopnahléi.

Benghazi er á valdi uppreisnarmanna. Uppreisnarmennirnir segja að þeir hafi orðið fyrir árásum frá hersveitum Gaddafis en ríkisstjórnin neitar þessum fullyrðingum. Leiðtogar Bretlands, Bandaríkjanna, Frakklands og Arabaríkja munu hittast í París í dag til þess að ræða stöðu Líbíu.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að allur heimurinn verði að tala einni röddu í aðgerðum gegn Líbíu. Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var í vikunni, kveður á um að beita skuli öllum leiðum til þess að vernda líbíska borgara.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna segir að Gaddafi verði að verða við öllum skilyrðum Sameinuðu þjóðanna, hætta árásum á almenning, koma vatni og rafmagni aftur á í Benghazi og hleypa alþjóðlegum hjálparsamtökum til landsins til að sinna fólki í neyð. Líklegt er að á leiðtogafundinum í París verði teknar ákvarðanir um fyrstu hernaðaraðgerðir gegn Gaddafi stjórninni og er jafnvel búist við að þær hefjist á næstu klukkustundum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×