Innlent

Gullsmiður yfirbugaði lambúshettuklædda ræningja

Það var á föstudaginn klukkan fimm sem tveir menn með lambúshettur brutust inn í gullverslun Magnúsar Steinþórssonar. Annar mannana tók Magnús taki meðan hinn reyndi að opna skúffu fulla af peningum.

„Ég hugsa. Bíddu, þessir gaurar ætla að ræna mig og lemja mig! Ég tek þennan sem liggur ofan á mér og hendi upp í loftið. Ég veit ekki hvar ég fékk kraftinn en hann flýgur og lendir hérna á bakinu í sófanum og öskrar upp við það og þessi sem var að fara í skúffuna lítur á félaga sinn og um leið næ ég að slá til hans. Svo stekk ég á fætur og segi: Er það þetta sem þið viljið. Ekkert mál. Og þeir leggja á flótta," segir Magnús.

Magnús gagnrýnir viðbrögð lögreglunnar. Hann segir að þeir hafi ekki mætt á staðinn heldur beðið hann að koma upp á stöð og skila skýrslu. Hann sé ekki bjartsýnn á að ræningjarnir náist en hann þekki þá í sjón þrátt fyrir að þeir hafi hulið andlit sín.

„Eina sem mér var sagt hjá Neyðarlínunni hvort ég þyrfti ekki áfallahjálp. Ég sagði nei, ég þarf enga áfallahjálp en ég er alveg viss um að þessir gæjar þurfi áfallahjálp því þeir bjuggust aldrei við þessu," segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×