Tiger Woods baðst í gær afsökunar á því að hafa hrækt á flötina á lokadegi Dubai meistaramótsins sem lauk á sunnudaginn. Woods lét góða „slummu" flakka á meðan hann var að undirbúa sig fyrir pútt og vakti hann ekki mikla lukku hjá forráðamönnum golfíþróttarinnar.
Bandaríski kylfingurinn hefur nú beðist afsökunar en það gerði hann á Twitter samskipta síðunni en hann þarf að greiða sekt fyrir atvikið.
Woods ætti að hafa efni á því en sektin er á bilinu 50.000 kr - 1,8 milljónir kr. Hinn 35 ára gamli Woods fékk um 340 milljónir kr. fyrir það eitt að taka þátt á mótinu og sektin er því ekki að setja heimilisbókhaldið úr skorðum hjá kylfingnum.
Mjög strangt er tekið á slíku athæfi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og þeir sem hrækja á götum úti geta átt von á sekt upp á 100 pund eða um 18.000 kr.
Þess má geta að Woods endaði í 20. sæti á mótinu eftir að hafa leikið lokahringinn á 75 höggum. Hann fékk um 3 milljónir kr. í verðlaunafé fyrir þann árangur.

