Innlent

Skiptibókamarkaðirnir mæta þörf

Útgefendur hafa áhyggjur af dræmri sölu kennslubóka en bóksalar neita því að skiptimörkuðum sé um að kenna.
Útgefendur hafa áhyggjur af dræmri sölu kennslubóka en bóksalar neita því að skiptimörkuðum sé um að kenna. Mynd/Valli

Skiptibókamarkaðir eru ekki ástæðan fyrir slæmri stöðu á markaði fyrir kennslubækur. Það segir Kjartan Örn Sigurðsson, forstjóri Office 1, sem er meðal þeirra bóksala sem halda úti skiptibókamarkaði allt árið um kring.

Í Fréttablaðinu á laugardag voru áhyggjur bókaútgefenda tíundaðar og sagðist Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, ekki sjá fram á að geta þróað eða gefið út nýjar kennslubækur næstu ár vegna hruns í sölu.

Kjartan Örn segir hins vegar að skiptibókamarkaðir verslana séu ekki orsakavaldurinn, og þeir muni alltaf verða til.

„Stóra ástæðan bak við vandræði í útgáfu kennslubóka er fámennið á Íslandi. Hér þarf miklu frekar að hugsa til þess að rafbókavæða markaðinn fyrir kennslubækur. Þá er hægt að treysta á miklu minni útgáfu en á prentuðum bókum."

Hann segir skiptimarkaði vera svar við kröfum viðskiptavina. „Við erum í miðri kreppu og námsmenn eru athugulir kúnnar sem leita auðvitað að bestu kjörunum hverju sinni. Við stjórnum ekki neytandanum í þessu máli, heldur mætum við þörfinni í samfélaginu." - þj






Tengdar fréttir

Grundvöllur útgáfu hruninn

Grundvöllur útgáfu námsbóka fyrir framhaldsskóla er hruninn að sögn helstu útgefenda hér á landi. Þeir telja að jafnvel verði ekki þróað eða gefið út námsefni á næstunni. Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir í samtali við Fréttablaðið að vendipunktur hafi verið í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×