Innlent

Bæjarábyrgð fyrir verktaka ólögleg segir í lögfræðiáliti

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri sést hér með Helgafell í baksýn. Hann er ósammála niðurstöðu lögfræðiálits sem unnið var fyrir bæjarráð um að viðskiptin við verktaka í Helgafellslandi hafi brotið í bága við lög.Fréttablaðið/GVA
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri sést hér með Helgafell í baksýn. Hann er ósammála niðurstöðu lögfræðiálits sem unnið var fyrir bæjarráð um að viðskiptin við verktaka í Helgafellslandi hafi brotið í bága við lög.Fréttablaðið/GVA

Mosfellsbær braut sveitarstjórnarlög með því að taka við víxlum sem greiðslu fyrir skuld verktaka og með því að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir verktakann. Þetta segir í lögfræðiáliti sem unnið var fyrir bæjarráð.

Mosfellsbær gerði árið 2006 samstarfssamning við forvera Helgafellsbygginga ehf. um uppbyggingu í Helgafellslandi. Verktakinn átti að greiða bænum 700 þúsund krónur fyrir hverja byggða íbúð og átti að lágmarki að borga fyrir 1.020 íbúðir. Heildargreiðslan átti því að verða minnst 714 milljóir króna.

Í júlí 2008 höfðu 416 íbúðir verið seldar og bærinn fengið 130 milljónir króna en 200 milljónir voru ógreiddar. Þá var samið um að Helgafellsbyggingar borguðu eftirstöðvarnar með víxli. Gaf félagið síðan út 239 milljóna króna víxil til uppgjörs á 198 milljóna króna skuld. Í september 2009 var samkomulagið framlengt með því að bærinn gekk í sjálfskuldarábyrgð fyrir 246 milljóna höfuðstóli láns Helgafellsbygginga hjá Landsbankanum.

Fulltrúi minnhluta Íbúahreyfingarinnar í bæjarstjórn, Jón Jósef Bjarnason, gagnrýndi þessi vinnubrögð. Bæjarráðið fékk Lex til að meta lögmæti gjörninganna. Telur lögmannsstofan að í báðum tilvikum hafi 6. málsgrein sveitarstjórnarlaga verið brotin.

„Samkvæmt ákvæðinu getur sveitarfélag annars vegar ábyrgst lán til stofnana og fyrirtækja sem er að hálfu eða meirihluta í eigu sveitarfélagsins sjálfs. Hins vegar getur sveitarfélag veitt einfalda ábyrgð vegna lánveitinga til framkvæmda á vegum félaga sem sveitar­félagið á og rekur í samvinnu við önnur sveitarfélög eða aðra opinbera aðila til að veita lögbundna þjónustu,“ segir í áliti Lex. Þá eigi 7. grein laganna ekki við því gerningarnir falli ekki undir daglegan rekstur. Slík ábyrgðarskuldbinding, sem stofnað sé til í andstöðu við lög, sé ógild.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri er ósammála því að ekki sé um „daglegan rekstur“ að ræða. „Það sjónarmið kemur á óvart enda var full samstaða um það í bæjarráði og bæjarstjórn á sínum tíma að afgreiða málið með þessum hætti,“ segir bæjarstjórinn sem kveður ekki munu reyna á ábyrgð bæjarins fyrr en næsta haust þegar viðskiptabréfið verður á gjalddaga.

„Mosfellsbær hefur trygg veð fyrir sinni framsalsábyrgð, ef svo ólíklega vildi til að ábyrgðin félli á bæinn. Hins vegar væri æskilegt að skoða almennt í framhaldinu hvaða áhrif þetta hefur á aðferðir sveitarfélaga við skuldainnheimtu, ef rétt reynist að slíkur gjörningur flokkist ekki undir daglegan rekstur, því það er ekki einsdæmi í Mosfellsbæ að sveitarfélag hafi framselt viðskiptabréf til að breyta því í handbært fé eins og í þessu tilviki,“ segir bæjarstjórinn. Veðin segir Haraldur vera í byggingarrétti á fjölbýlishúsalóð og í 300 fermetra einbýlishúsi.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×