Innlent

Vigdís segir sig úr umhverfisnefnd - getur ekki unnið með Merði

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir.

Vigdís Hauksdóttir þingkona Framsóknarflokksins og fulltrúi í umhverfisnefnd hefur óskað eftir lausn frá störfum í nefndinni. Ástæðuna segir hún vera samstarfsörðugleikar við formann nefndarinnar, Mörð Árnason, Samfylkingunni.

„Augljóst er að formaður nefndarinnar beitir mjög mismunandi vinnubrögðum eftir því hvort stjórnarþingmenn eða stjórnarandstöðuþingmenn eiga í hlut. Er hann vart hæfur til að gegna formennsku í nefnd sökum hlutdrægni. Tók steininn úr á fundi nú í morgun og gekk ég af fundi ásamt öðrum þingmanni sem eins var ástatt um," segir Vigdís á heimasíðu sinni en hún tiltekur ekki hvaða þingmann er um að ræða sem gekk út af fundi ásamt henni.

„Er nefndarstjórn þingmannsins afar einkennileg - sérstaklega í ljósi vinnubragða sem hann sjálfur beitir fund eftir fund sem óbreyttur þingmaður í allsherjarnefnd - að eftir er tekið," segir hún að auki.

Vigdís segir að samkvæmt þingsköpum hafi allir þingmenn málfrelsi á nefndarfundum og að gæta skuli jafnræðis milli þeirra. „Þessi hlutleysissjónarmið eru ekki í heiðri höfð í umhverfisnefnd," segir hún og bætir við að eini kosturinn í stöðunni fyrir sig sé að biðjast lausar. „Mun ég taka málið upp á þingflokksfundi í dag og fara þess á leit að flokkurinn tilnefndi annan þingmann í minn stað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×