Innlent

Frisbígolfvöllur opnaður á Klambratúni

Frisbígolfvöllur.
Frisbígolfvöllur.
Á Klambratúni hefur verið komið upp aðstöðu til að leika frisbígolf samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Það var gert að ósk íbúa sem hafa um nokkurt skeið stundað þessa íþrótt á túninu. Búið er að setja upp leikvöll með níu teigum og körfum og er hann öllum opinn.

Frisbígolf eða folf er skemmtileg fjölskylduíþrótt, en allir sem geta kastað frisbídiski geta verið með í leiknum.

Íslenska frisbígolfsambandið ætlar á næstu vikum að vera með kynningu á íþróttinni á Klambratúni og leyfa fólki að prófa leikinn á milli kl. 17-19 alla virka daga.

Fyrsti kynningartíminn verður mánudaginn 18. júlí.

Frisbígolf eða folf hefur á undanförnum árum verið að vinna sér sess hér á landi. Reglurnar eru líkar þeim sem leikið er eftir í golfi en í stað golfkúlu eru notaðir frisbídiskar. Kastað er frá teigsvæði í körfur og sigrar sá sem nær að kasta diski í körfuna í fæstum skotum.

Í leiknum má nota alla venjulega frisbídiska en best er að nota sérhannaða diska sem fljúga mun lengra. Hægt er að stunda þessa íþrótt allt árið en leikurinn er vinsælastur yfir sumarmánuðina.

Frisbígolf er stundað víða um heim og haldin eru heimsmeistaramót í íþróttinni. Nokkur þúsund atvinnumenn stunda þessa íþrótt, flestir í Bandaríkjunum, enda frisbígolf þaðan komin.

Á Íslandi eru nú 5 frisbígolfvellir. Sá stærsti er við Gufunesbæ í Grafarvogi en hann er með 18 körfur, en 9 körfu vellir eru að Hömrum á Akureyri, við Úlfljótsvatn og á svæði VR í Úthlíð við Laugavatn.

Einnig eru körfur á nokkrum tjaldsvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×