Innlent

Minni skellur en búist var við

Hótelhaldarar beggja vegna Múlakvíslar taka við strandaglópum og haga afgreiðslutímanum eftir tiktúrum náttúrunnar. Fréttablaðið/Stefán
Hótelhaldarar beggja vegna Múlakvíslar taka við strandaglópum og haga afgreiðslutímanum eftir tiktúrum náttúrunnar. Fréttablaðið/Stefán
„Flumbrugangurinn fyrstu dagana eftir flóðið hefur kostað okkur gríðarlega mikið," segir Jón Grétar Ingvason. Hann rekur gistiheimilið Klausturhof og Kaffi Munka á Kirkjubæjarklaustri. Þar hafa á bilinu sextíu til hundrað manns afpantað gistipláss eftir að hlaup í Múlakvísl tók þjóðveginn í sundur á laugardag.

Flestir þeir sem drógu bókanir til baka voru í hópum sem ferðast hafa um landið í rútum sem hvorki komust með selflutningunum yfir Múlakvísl né réðu við slæma vegi á Fjallabaksleið.

Hljóðið er betra á stærri hótelum og gistiheimilum beggja vegna Múlakvíslar. Starfsfólk þar segir aðstæður breytast fljótt og það verði að vinna eftir tiktúrum náttúrunnar.

Á Hótel Klaustri á Kirkjubæjarklaustri voru öll herbergi bókuð í gær. Þar hafa viðgengist gestaskipti, það er að ferðalangar sem ætluðu að gista í Vík í Mýrdal, en komust ekki yfir Múlakvísl eftir að hætt var að selflytja fólk yfir hana í gær, höfðu næturdvöl á Kirkjubæjarklaustri. Þeir sem ætluðu austur yfir en komust hvergi gistu í Vík.

„Hóparnir skila sér betur en aðrir. Þeir skila sér síðar í hús enda tekur ferðin yfir Fjallabak sex klukkutíma í stað eins yfir Múlakvíslina," segir Steinþór Vigfússon, hótelstjóri á Hótel Dyrhólaey.

Afgreiðslutíma á hótelinu hefur verið breytt í takt við aðstæður, morgunverður er klukkan sex á morgnana í stað sjö og kvöldverður reiddur fram allt fram undir miðnætti. „Í gær [fyrrakvöld] kom hingað hópur Spánverja. Þeir voru sáttir enda vanir því að borða seint á kvöldin," segir Steinþór. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×