Innlent

Aðeins eitt alvarlegt slys við brú

Unnið er að tvöföldun brúarinnar yfir Haffjarðará og verður nýja brúin tilbúin í haust.
fréttablaðið/pjetur
Unnið er að tvöföldun brúarinnar yfir Haffjarðará og verður nýja brúin tilbúin í haust. fréttablaðið/pjetur
Vegagerðin hefur á stefnuskrá sinni að fækka einbreiðum brúm á hringveginum, líkt og Fréttablaðið hefur greint frá. Slysatölur sýna hins vegar að ekki er mikið um slys við einbreiðar brýr og á síðustu fjórum árum hefur aðeins orðið eitt alvarlegt slys við þær aðstæður.

Líkt og komið hefur fram í umfjöllun Fréttablaðsins eru enn 42 einbreiðar brýr á hringveginum. Þær eru flokkaðar sem svartblettir, ásamt kröppum beygjum og hættulegum vegamótum, en það eru staðir þar sem reglulega verður fjöldi slysa af líkum toga.

Samkvæmt slysakorti Umferðarstofu, sem finna má á heimasíðu stofunnar, hefur á tímabilinu 1. janúar 2007 til 31. desember 2010, aðeins orðið eitt slys við einbreiða brú þar sem alvarleg meiðsl urðu á fólki. Ekkert banaslys hefur orðið við slíkar aðstæður á þessu tímabili.

Á þessu tímabili hafa 19 slys orðið án meiðsla og tvö þar sem aðeins urðu lítil meiðsl.

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, segir að svo virðist sem ökumenn gæti varúðar á og við einbreiðar brýr. Það breyti því þó ekki að þær geti verið hættulegar.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×