Innlent

Vill fresta ráðningu Bjarna sem forstjóra Orkuveitunnar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Valli
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur vill að ráðningu forstjóra fyrirtæksins verði frestað. Hann hefur gert athugasemdir við ráðningaferlið en fyrir borgarráði er nú til meðferðar tillaga um að borgarlögmanni verði falið að skoða ráðningarferlið.

Bjarna Bjarnasyni, framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun, hefur verið boðið starf forstjóra Orkuveitunnar. Sextíu manns sóttu um starfið en ákvörðun um ráðninguna var tekin stjórnarfundi Orkuveitunnar í dag.

Kjartan vill fresta ráðningunni þangað til borgarráð hefur tekið afstöðu til umræddar tillögu. Verði hún samþykkt verður borgarlögmanni gert að skila áliti á því hvort ráðningaferlið samræmist góðum stjórnarháttum sem eðlilegt er að séu viðhafðir í opinberu fyrirtæki.

Kjartan segist hafa allt frá því vinna hófst við ráðningu nýs forstjóra lagt áherslu á að stjórn fyrirtækisins taki fullan þátt í ferlinu á öllum stigum málsins.

„Meirihluti stjórnar hefur hins vegar verið annarrar skoðunar og látið viðgangast að tveir einstaklingar utan stjórnar annist að mestu leyti val umsækjenda án þess að hafa til þess umboð hennar. Vegna þessara vinnubragða hafa aðeins tveir umsækjendur af sextíu hlotið eðlilega umfjöllun stjórnar og er stjórnarmönnum nú gert að gera upp á milli þeirra. Ekki verður því talið að meirihluti stjórnar hafi í þessu máli staðið undir því lögbundna hlutverki sínu að kynna sér gögn máls nægilega vel til að taka upplýsta og rökstudda ákvörðun. Spurning vaknar einnig um hvort brotið hafi verið á rétti umsækjenda með því að umsóknir þeirra hafi ekki hlotið tilhlýðilega meðferð stjórnar," segir í bókun sem Kjartan lagði fram á stjórnarfundinum í dag.




Tengdar fréttir

Framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun boðið forstjórastarf OR

Bjarna Bjarnasyni, framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun, hefur verið boðið starf forstjóra Orkuveitunnar. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins en ákvörðun um þetta var tekin stjórnarfundi í dag. Af öllum líkindum verður greint formlega frá ráðningunni á morgun. Sextíu manns sóttu um starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×