Innlent

Nefþjófarnir gefa sig fram

„Þetta var bara glens," segir Helgi Már Jónsson en vinir hans fjarlægðu um helgina nef af risastórum snjókarli sem stendur á Ráðhústorginu á Akureyri. Eftir að fjallað var um málið á Vísi fyrr í dag ákváðu Helgi og félagar að skila nefinu. „Nefið er komið á réttan stað," segir Helgi og bætir við að nú þurfi almenningur ekki að örvænta lengur.

Um er að ræða tveggja metra langt nef úr frauðplasti og standa neðan úr því steypustyrktarjárn sem notuð voru til að festa það við snjókarlinn. Nefið hvarf aðfararnótt laugardags en lokið var við gerð snjókarlsins daginn áður.

Í frétt Vísis í dag kom fram að ekki var talið líklegt að neinn hefði farið með nefið heim í stofu. Helgi segir að það hafi einmitt verið raunin. „Nefnið var prýðis stofuskraut."

Ragnar Hólm Ragnarsson, upplýsingafulltrúi hjá Akureyrarstofu, staðfestir að búið sé að skila nefinu. „Hringnum er lokað." Hann segir þó ljóst að koma verði nefinu almennilega fyrir á snjókarlinum. „Þeir hafa ekki náð að kýla það almennilega inn. Starfsmenn fara í það í fyrramálið."

Ragnar á ekki von á því að eftirmál verði vegna þjófnaðarins.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×