Erlent

Mladic þótti fölur og ellilegur

Radovan Karadzic og Ratko Mladic. Einn af samverkamönnum Mladic, Radovan Karadzic, var handtekinn árið 2008, en þá tók að þrengja mjög að Mladic. Mynd/AP
Radovan Karadzic og Ratko Mladic. Einn af samverkamönnum Mladic, Radovan Karadzic, var handtekinn árið 2008, en þá tók að þrengja mjög að Mladic. Mynd/AP
„Við höfum bundið enda á erfitt tímabil í sögu okkar og fjarlægt blettinn framan úr þjóðbræðrum okkar, hvar sem þeir búa," sagði Boris Tadic, forsætisráðherra Serbíu, þegar hann skýrði frá því að Ratko Mladic hefði verið handtekinn.

 

Tadic boðaði til blaðamannafundar í gærmorgun þar sem hann staðfesti tíðindin, sem þá voru strax komin í heimsfréttirnar, fáeinum klukkustundum eftir handtökuna.

Ratko Mladic, fyrrverandi yfirmaður herliðs Bosníu-Serba, hefur verið í felum síðan 2001. Hann var yfirmaður hermannanna sem myrtu allt að átta þúsund bosníska menn og drengi nálægt bænum Srebrenica í Bosníu í júlí 1995. Fjöldamorðin þar eru versti stríðsglæpur seinni tíma í Evrópu, en Mladic er talinn hafa verið einn helsti hvatamaður þeirra og skipuleggjandi.

 

Mladic var handtekinn snemma í gærmorgun á heimili ættingja síns í Lazarevo, tvö þúsund manna þorpi norðarlega í Serbíu. Mladic var með tvær skammbyssur þegar hann var handtekinn en veitti enga mótspyrnu.

 

Hann þótti fölur og ellilegur, að sögn serbneskra embættismanna og fjölmiðla. Þetta var talið merki um að hann hafi ekki verið mikið úti við.

 

Handtaka hans getur hraðað því, að Evrópusambandið samþykki að hefja aðildarviðræður við Serbíu. Serbar hafa lengi óskað eftir aðild en meðal þess sem strandað hefur á er hversu hægt hefur gengið að hafa hendur í hári Mladic og annarra grunaðra stríðsglæpamanna.

 

Fouad Riad, saksóknari alþjóðlegs stríðsglæpadómstóls í Haag, gaf út ákæru á hendur Mladic strax árið 1995, en Mladic gat engu að síður ferðast um óhultur í Serbíu allt þangað til Slobodan Milosevic, sem þá hafði nýlega sagt af sér forsetaembætti vegna fjöldamótmæla, var handtekinn í Serbíu í mars 2001 og framseldur til Haag.

 

Í ákæruskjali Riads frá 1995 segir að fjöldamorðin í Srebrenica hafi verið ótrúlega villimannleg: „Þúsundir manna voru teknar af lífi og settar í fjöldagrafir, hundruð manna voru grafin lifandi, menn og konur voru limlest og drepin, börn voru drepin fyrir augum mæðra þeirra, afi nokkur var þvingaður til að leggja sér til munns lifur úr barnabarni sínu."

 

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×