Erlent

Danir gera tilkall til norðurpólsins

Rússneski fáninn á Norðurpólnum Danir ætla nú að feta í fótspor Rússa og gera formlegt tilkall til norðurpólsins.nordicphotos/AFP
Rússneski fáninn á Norðurpólnum Danir ætla nú að feta í fótspor Rússa og gera formlegt tilkall til norðurpólsins.nordicphotos/AFP
„Konungsríkið býst við að gera tilkall til landgrunnsins á fimm svæðum umhverfis Grænland og Færeyjar, þar á meðal til sjálfs norðurpólsins,“ segir í drögum að sameiginlegri stefnu Danmerkur, Grænlands og Færeyja í norðurskautsmálum næstu tíu árin.

Danska dagblaðið Information hefur birt drögin á vefsíðu sinni, en skjalið átti að vera trúnaðarmál. Danska stjórnin hefur staðfest að skjalið er ófalsað, en segir þetta vera vinnuskjal.

Lene Espersen utanríkisráðherra segir að endanleg útfærsla stefnunnar verði ekki afgreidd fyrr en í júní. Þó staðfestir hún, í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær, að Danir reikni með að geta gert tilkall til norðurpólsins.

Í skjalinu er jafnframt tekið fram, að danska stjórnin leggi áherslu á friðsamlegt samstarf við önnur ríki, sem gera tilkall til norðurpólsins, og víðtækt samstarf um málefni norðurskautsins. Hins vegar er einnig lagt til að danski herinn beini starfi sínu í auknum mæli að norðurslóðum.

Rússar hafa á síðustu árum gert tilkall til norðurpólsins og vöktu mikla athygli þegar þeir sendu kafara til að setja upp rússneska fánann á hafsbotni á sjálfum norðurpólnum. Þeir voru jafnframt gagnrýndir fyrir það tiltæki, þótt einkum hafi það átt að hafa táknrænan tilgang.

Auk Rússa hafa Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Norðmenn gert tilkall til sjálfs norðurpólsins í krafti þess að hann sé beint úti af ströndum þeirra. Danir gera sitt tilkall í krafti þess að norðurpóllinn er beint norður af ströndum Grænlands.

Mikilvægi norðurslóða hefur vaxið á síðustu árum, einkum vegna hlýnunar jarðar sem innan fárra áratuga mun að öllum líkindum valda því að siglingaleiðir yfir Norður-Íshafið verða greiðfærar hluta ársins.

Talið er víst að miklar auðlindir leynist í landgrunninu víða á norðurslóðum, meðal annars sé þar að finna olíu og gas í ríkum mæli. Vinnsla þeirra auðlinda verður mun auðveldari þegar ísinn hörfar.

Til þessa hefur ekkert ríki átt formlegt tilkall til norðurpólsins. Samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa ríki tíu ára frest, eftir að þau staðfestu sáttmálann, til þess að gera tilkall til alþjóðlegs hafsvæðis áður en hægt verður að hefja eiginlegar samningaviðræður um skiptingu svæðisins. Danir staðfestu sáttmálann árið 2004. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×