Fótbolti

Babel: Benitez sveik gefin loforð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ryan Babel er enn fúll út í Rafael Benitez og kennir honum um að hann hafi ekki slegið í gegn hjá Liverpool á sínum tíma.

Babel er nú kominn til Ajax í heimalandinu eftir að hafa stoppað stutt við hjá Hoffenheim í Þýskalandi. Hann var keyptur til Liverpool fyrir ellefu milljónir punda árið 2007 en þótti aldrei standa undir væntingum.

Ajax mætir Manchester City í Meistaradeild Evrópu í vikunni og ætlar Babel að sýna enskum stuðningsmönnum hvað hann geti.

„Ég tel að Englendingar hafi aldrei fengið að sjá mínar bestu hliðar," sagði Babel í samtali við The Mirror um helgina. „Leikmenn þurfa sjálfstraust til að ná sínu besta fram en mér fannst ég aldrei í miklum metum hjá ákveðnum mönnum hjá Liverpool."

„Rafa Benitez lofaði mér á sínum tíma að hann myndi hjálpa mér að þroskast og vaxa sem leikmaður. En hann gekk fljótt á bak orða sinna og allt annað kom á daginn. Ég held að ég hafi aldrei náð að spila meira en þrjá leiki í röð."

„En ég elska Liverpool og á enn húsnæði þar. Ég elska stuðningsmennina og á góðar minningar frá tíma mínum þar. Ég lærði mikið af þessum tíma og er sterkari fyrir vikið. Allir hjá Ajax gera sér grein fyrir því."

„Ég hef gert mistök. En ég er 25 ára gamall og ekki of seint að ná mér á strik. Ég hef enn trú á því að ég geti orðið jafn góður og fólk taldi á sínum tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×