Fótbolti

Bannið hjá þjálfara Juventus stytt um sex mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte, þjálfari Juventus.
Antonio Conte, þjálfari Juventus. Mynd/AFP
Antonio Conte, þjálfari Juventus, var dæmdur í tíu mánaða bann fyrir tímabilið vegna þess að hann tilkynnti ekki um það þegar leikmenn hans hagræddu úrslitum þegar hann þjálfaði Siena tímabilið 2010-11. Íþróttadómstóll Ítalíu hefur nú stytt bannið um sex mánuði.

Conte átti að missa af öllu tímabilinu en áfrýjaði útskurði ítalska fótboltasambandsins til Íþrótta- og Ólympíunefndar Ítala sem ákvað að stytta bannið úr tíu mánuðum niður í fjóra mánuði.

Hinn 43 ára gamli Antonio Conte má nú stýra Juventus-liðinu á nýjan leik frá og með 9. desember en hann gerði Juve að ítölskum meisturum á sínu fyrsta ári með liðinu og liðið tapaði þá ekki leik allt tímabilið.

Conte var í fyrstu ákærður um að hafa vitað af hagræðingu úrslita í tveimur leikjum Siena en var seinna sýknaður af því að hafa vitað af braski leikmanna sinna í öðrum þeirra.

Samkvæmt banninu þá má Conte stýra æfingum Juventus-liðsins en hann má aftur á móti ekki hafa nein afskipti af liðinu á leikdegi. Massimo Carrera stýrir Juventus-liðinu í leikjunum þar til að Conte kemur úr banninu.

Antonio Conte mun missa af fimmtán deildarleikjum á þessum fjórum mánuðum og öll sex leikjum liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×