Sport

Bretar lifa í voninni eftir sigur Murray

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Skotinn Andy Murray tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum í einliðaleik karla á Wimbledon-mótinu í tennis. Murray lagði Spánverjann David Ferrer að velli í fjögurra setta leik.

Bretar hafa ekki séð samlanda sinn leika til úrslita í mótinu síðan árið 1938. Um árabil fylgdust þeir spenntir með gengi Englendingsins Tim Henman en undanfarin ár hefur pressan verið á Murray.

Framan af leik í dag var útlitið svart hjá Skotanum. Ferrer, sem var raðað sjöundi fyrir mótið, vann sigur 7-6 í fyrsta settinu.

Þótt barátta Murray hafi ekki skilað honum sigri í fyrsta settinu gerði hún það í öðru sem fór einnig í oddalotu. Murray lenti 5-2 undir í oddalotunni, náði að vinna mikilvægt stig 6-5 undir og tvö til viðbótar og tryggja sér sigur í settinu.

Baráttan hélt áfram í þriðja setti og lá í loftinu að rigning myndi spila hlutverk í leiknum. Murray tókst að tryggja sér sigur í þriðja setti rétt áður en gera þurfti hlé á leiknum vegna rigningar.

Í fjórða setti var enn oddalota uppi á teningnum sem Murray vann 7-4 og þar með leikinn í fjórum settum 6-7, 7-6, 6-4 og 7-6.

Murray mætir Frakkanum Jo-Wilfried Tsonga í undanúrslitum mótsins. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Roger Federer og Novak Djokovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×