Enski boltinn

Guðni hlakkar til að sjá Gylfa spila

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðni Bergsson er fyrrverandi leikmaður Tottenham.
Guðni Bergsson er fyrrverandi leikmaður Tottenham. mynd/ hari.
Guðni Bergsson, lögfræðingur og fyrrverandi knattspyrnumaður hjá enska liðinu Tottenham, hlakkar til að sjá Gylfa Sigurðsson spila með liðinu. Eins og greint var frá í dag er Gylfi búinn að semja við liðið. Guðni hefur fylgst með Tottenham undanfarin ár og telur að Gylfi eigi góða möguleika á að láta ljós sitt skína.

„Bæði miðað við leikstíl liðsins og svo geri ég líka ráð fyrir að nýr framkvæmdastjóri hafi lagt hart að honum að koma til Tottenham því að hann virtist nú hafa átt möguleika á að fara víða annað, meðal annars til Liverpool," segir Guðni. Hann býst við því að Gylfi sé mjög framarlega í plönum hjá Andre Villas-Boas, nýjum framkvæmdastjóra liðsins. „Og maður vonar þá að honum gangi sem best hjá nýju Tottenham liði," segir Guðni.

Guðni vill ekki vera með miklar vangaveltur um það hví Gylfi hafi ákveðið að fara til Tottenham, frekar en Liverpool. „Gylfi mun nú mögulega tjá sig eitthvað um það," segir hann. „Maður veit nú ekki hvernig tilboð Liverpool hefur verið tilbúið til þess að gera bæði til Hoffenheim og þá líka til Gylfa eða hvað hefur farið fram milli hans og framkvæmdastjóranna," bætir Guðni við.

Hann bætir því við að það sé lykilatriði að Gylfi fái að spila sem mest með Tottenham og fái að njóta sín og býst við að Gylfi sé með mikið sjálfstraust til að láta til sín taka hjá sterku liði. „Hann metur það ábyggilega svo að það sé lykilatriði fyrir hann að fá að spila sem mest," segir Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×