Enski boltinn

Tottenham staðfestir komu Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tottenham hefur staðfest komu Gylfa Þórs Sigurðssonar til félagsins. Frétt birtist þess efnis birtist á heimasíðu þess í dag.

Í fréttinni segir að Tottenham hafi gengið við samkomulagi við Hoffenheim um kaup á Gylfa en ekki kemur fram hversu langur samningurinn er.

Þetta hefur legið í loftinu síðustu daga en í gær var gengið frá ráðningu Andre Villas-Boas í stöðu knattspyrnustjóra félagsins. Gylfi er því fyrsti leikmaðurinn sem kemur til félagsins eftir ráðningu hans.

Gylfi lék sem lánsmaður hjá Swansea á síðari hluta síðasta tímabils en hann var samningsbundinn Hoffenheim til 2014. Brendan Rodgers, sem fékk hann til Swansea um áramótin, var ráðinn til Liverpool í vor og vildi fá Gylfa þangað.

Gylfi valdi hins vegar á endanum að ganga til liðs við Lundúnarfélagið Tottenham, sem hafnaði í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Ekki kemur fram hvað Tottenham greiðir fyrir Gylfa en Swansea hafði áður boðið 6,8 milljónir punda, um 1,3 milljarða króna, í kappann. Fréttavefur Morgunblaðsins segir kaupverðið vera átta milljónir punda - um 1,6 milljarðar króna.


Tengdar fréttir

Guðni hlakkar til að sjá Gylfa spila

Guðni Bergsson, lögfræðingur og fyrrverandi knattspyrnumaður hjá enska liðinu Tottenham, hlakkar til að sjá Gylfa Sigurðsson spila með liðinu. Eins og greint var frá í dag er Gylfi búinn að semja við liðið. Guðni hefur fylgst með Tottenham undanfarin ár og telur að Gylfi eigi góða möguleika á að láta ljós sitt skína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×