Innlent

Fundu sprengjumann á Facebook - ógnaði sérsveit með hníf

Sérsveitin að störfum. Myndin er úr safni.
Sérsveitin að störfum. Myndin er úr safni.
Rétt tæplega þrítugur karlmaður var handtekinn um miðnætti á Suðurnesjum, en á heimili hans fannst rörasprengja, kindabyssa og efni til sprengjugerðar. Sérsveit ríkislögreglustjórans yfirbugaði manninn eftir að hann ógnaði þeim með hníf.

Lögreglan á Suðurnesjum fékk tilkynningu um undarlegt háttalag mannsins á samskiptavefnum Facebook í gær. Þar mátti finna myndir af manninum, sem er 29 ára gamall, handleika skotvopn auk þess sem þar mátti finna myndir af sprengju og sprengjuefni. Þá hafði maðurinn myndað það þegar hann sprengdi fiskikar í loft upp.

Lögreglan á Suðurnesjum ákvað í kjölfarið að handtaka manninn. Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra fóru vopnaðir inn á heimilið mannsins, sem var þar einn. Þegar maðurinn varð var við sérsveitarmennina ógnaði hann þeim með hnífi. Sérsveitarmennirnir yfirbuguðu hann og yfirgáfu svo íbúðina, ásamt hinum grunaða, af ótta við sprengjuefni á heimilinu. Sprengjuefnið var svo fjarlægt, en þar fundust meðal annars púður, þræðir og blys. Og svo tilbúin rörasprengja.

Í ljós kom að byssan, sem var 22. kalibera, og er í daglegu tali kölluð kindabyssa, var stolið árið 2006. Þá var hann með nokkurt magn eggvopna á heimilinu og tvær eftirlíkingar af skammbyssum.

Maðurinn er nú í haldi lögreglu og verður yfirheyrður síðar í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var maðurinn ekki undir áhrifum fíkniefna né áfengis þegar hann var handtekinn.

Ekki er ljóst hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir manninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×