Innlent

Fangelsismálastjóri skorar á Matthías að gefa sig fram

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri.

„Það er ekki refsivert að strjúka úr fangelsi. Ég tel að það ætti að vera refsivert og að það ættu að vera þungar refsingar við því. Það er einvörðungu refsivert ef um samantekin ráð að ræða. Hafi menn sammælst um að strjúka þá er það refisvert,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við Vísi. Hann skorar á Matthías Mána Erlingsson, sem strauk úr fangelsinu á Litla-Hrauni á mánudag að gefa sig fram, svo mál hans verði ekki enn erfiðara en það er þegar orðið.



Páll vill að öðru leyti ekki tjá sig um það einstaka mál, en segir almennt talað að strok og tilraunir til stroka hafi áhrif á afplánun refsifanga. „Fangar fá agaviðurlög í formi einangrunar. Þetta hefur áhrif á vistun fangans í framhaldinu. „Við erum með opin fangelsi, við erum með áfangahemili og við erum með rafrænt eftirlit. Strok hefur áhrif á þessa þætti. Þannig að það borgar sig aldrei fyrir fanga að strjúka eða reyna að strjúka," segir Páll.



„Það hefur lítið verið um strok á Íslandi. þetta hafa verið misheppnaðar tilraunir, menn hafa farið í einhver dópbæli eða þá að menn hafa hringt hingað og viljað komast inn aftur," segir Páll. Nú sé Ísland að breytast úr litlu sveitasamfélagi og farið að líkjast meira því sem gerist á Norðurlöndunum. „Þess vegna þarf að vera almennilegt öryggisfangelsi og almennilegt gæsluvarðhaldsfangelsi. Það er það sem við höfum gert grein fyrir í fjöldamörg ár og erum fyrst núna að ná árangri og erum þakklát fyrir það," segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×