Fótbolti

Cantona býður sig fram til forseta í Frakklandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eric Cantona.
Eric Cantona. Nordic Photos / Getty Images
Eric Cantona, fyrrum framherji Manchester United, hefur tilkynnt að hann hafi í hyggju að bjóða sig fram í embætti forseta Frakklands.

Til þess þarf hann undirskriftir 500 kjörinna embættismanna í Frakklandi og hefur hann ritað til allra borgar- og bæjarstjóra í landinu þar sem hann óskar eftir þeirra stuðningi.

Hann þarf að vera kominn með undirskriftirnar í febrúar og fyrsta umferð kosninganna fer svo fram í apríl. Þeir tveir frambjóðendur sem fá flest atkvæði komast áfram í aðra umferð. Hún fer fram í maí og sigurvegarinn verður réttkjörinn forseti.

Francois Hollande, frambjóðandi sósíalista, nýtur nú mesta fylgisins samkvæmt skoðanakönnunum en núverandi forseti, Nicolas Sarkozy, kemur næstur.

Ljóst er að það verður erfitt fyrir Cantona að ná kjöri án stuðnings öflugs stjórnmálaafls en hann telur sig eiga erindi til kjósenda þar sem hann ætli að berjast gegn því óréttlæti sem viðgengst í þjóðfélaginu, eins og hann hefur sjálfur komist að orði.

Cantona er einn frægasti knattspyrnukappi sögunnar og er goðsögn í augum stuðningsmanna Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×