Innlent

Móðurbróðir kraftaverkabarnsins aðstoðarmaður fjármálaráðherra

Gunnar Tryggvason ásamt konu sinni, Úlfhildi Leifsdóttur, og Daníel Erni, þegar þau sóttu hann til Tyrklands.
Gunnar Tryggvason ásamt konu sinni, Úlfhildi Leifsdóttur, og Daníel Erni, þegar þau sóttu hann til Tyrklands.
Gunnar Tryggvason verkfræðingur hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Oddnýjar Harðardóttur fjármálaráðherra samkvæmt upplýsingum sem finna má á vef fjármálaráðuneytisins.

Þar segir að Gunnar sé með B.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands, Dipl.Ing gráðu í raforkuverkfræði frá Háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi og Diplomagráðu í viðskipta- og rekstrarfræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Gunnar hefur undanfarin tvö ár starfað sem sérfræðingur hjá KPMG á sviði orkuiðnaðar.

Hann lætur af störfum hjá KPMG á meðan hann gegnir starfi aðstoðarmanns fjármálaráðherra. Gunnar hefur níu ára starfsreynslu af störfum á fjármálamarkaði, en hann starfaði áður hjá fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og Investum. Að auki hefur Gunnar sjö ára starfsreynslu sem verkfræðingur í áliðnaði.

Gunnar er reyndar Íslendingum vel kunnugur, en systir hans, Dagbjört Þóra Tryggvadóttir, lést ásamt manni sínum, Jóhanni Árnasyni, í hörmulegu slysi í Tyrklandi í október árið 2010. Þau lentu í umferðarslysi á hraðbraut þar í landi, en sonur þeirra lifði slysið af.

Tyrkneskir fjölmiðlar voru gríðarlega áhugasamir um málið og var mikið fjallað um drenginn, Daníel Erni, í fjölmiðlum þar í landi sem og hér, þar sem hann var kallaður kraftaverkabarnið, en hann var rúmlega sex mánaða gamall þegar slysið átti sér stað.

Gunnar fór til Tyrklands ásamt konu sinni, Úlfhildi Leifsdóttur tannlækni, og sóttu þau drenginn.

Alls eiga þau sex börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×