Körfubolti

Sundsvall henti frá sér sigrinum í lokin | Fjögur töp í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson
Jakob Örn Sigurðarson Mynd/Valli
Jakob Örn Sigurðarson skoraði 28 stig í kvöld en það dugði ekki Sundsvall Dragons sem tapaði sínum fjórða leik í röð í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta. Sundsvall henti frá sér sigrinum í lokin og tapaði með einu stigi, 96-97, á móti Norrköping Dolphins á útivelli.

Sundvall var sjö stigum yfir þegar skammt var til leiksloka en ekkert gekk upp á lokamínútu leiksins og Norrköping tókst að tryggja sér dramatískan sigur.

Jakob skoraði 28 stig á 38 mínútum í leiknum en hann hitti úr 6 af 9 þriggja stiga skotum sínum. Jakob var einnig með 5 stoðsendingar og 2 varin skot í leiknum. Hlynur Bæringsson skoraði 18 stig, tók 10 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.

Sundsvall Dragons var 21-20 yfir eftir jafnan fyrsta leikhluta og ar síðan með sex stiga forskot í hálfleik, 48-42 eftir að hafa unnið síðustu þrjár mínútur hálfleiksins 11-2.

Jakob var kominn með 13 stig í hálfleik en skoraði síðan 11 stig í þriðja leikhlutanum en Sundsvall var fjórum stigum yfir eftir hann, 67-63.

Sundsvall náði mest 11 stiga forskoti í fjórða leikhlutanum, 85-74, en Norrköping-liðið kom til baka og tókst að tryggja sér sigurinn með því að vinna síðustu mínútu leiksins 10-2.

Pavel Ermolinskij lék ekki vegna meiðsla en hann hefur ekki getað spilað með Sundsvall-liðinu að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×