Körfubolti

Sundsvall vann Íslendingaslaginn við Jämtland | Jakob með 24 stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson. Mynd/Valli
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson voru að venju í stórum hlutverkum þegar Sundsvall Dragons vann sinn fjórða leik í röð í sænska úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Sundsvall Dragons vann þarna þriggja stiga útisigur á Brynjari Þór Björnssyni og félögum í Jämtland Basket, 85-82 en Jämtland-liðið var þarna að tapa sínum fjórða leik í röð. Jakob skoraði 10 af 24 stigum sínum í æsispennandi fjórða leikhluta.

Jakob Örn Sigurðarson var með 24 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar hjá Sundsvall og Hlynur Bæringsson var með 14 stig og 13 fráköst. Brynjar Þór Björnsson skoraði 9 stig fyrir Jämtland.

Sundsvall var með níu stiga forystu í hálfleik, 51-42, en Jämtland sótti að

Sundsvall í seinni hálfleiknum og jafnaði leikinn í 80-80 þegar 102 sekúndur voru eftir af leiknum. Jakob var betri en enginn í lokin og Sundsvall náði að landa sigri.

Sundsvall Dragons er þar með búið að vinna alla fjóra leiki sína á móti Jämtland á tímabilinu en þessi sigur kemur liðinu upp í þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×