Fótbolti

Inter tapaði enn einum leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Ekkert gengur hjá ítalska stórliðinu Inter þessa dagana en liðið tapaði enn einum leiknum í kvöld - í þetta sinn fyrir Marseille í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Andre Ayew tryggði Marseille dramatískan sigur í uppbótartíma með skallamarki eftir hornspyrnu. Leikurinn var annars afar tilþrifalítill en besta færi Inter fékk Diego Forlan. Skalli hans var varinn yfir mark heimamanna í fyrri hálfleik.

Claudio Ranieri tók við Inter í haust eftir slæma byrjun liðsins í deildinni. Hann náði að koma liðinu á rétt ról en ekkert hefur gengið að undanförnu. Liðið hefur tapað fimm af síðustu sex deildarleikjum sínum og mátti þola enn eitt tapið í kvöld.

Marseille er hins vegar á góðu skriði en liðið hefur nú leikið sextán leiki í röð í öllum keppnum án þess að tapa. Síðari leikurinn fer fram á Ítalíu í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×