Fótbolti

Zlatan gagnrýnir þjálfara AC Milan

Svíinn Zlatan Ibrahimovic var allt annað en sáttur við leikkerfið sem AC Milan spilaði gegn Arsenal á þriðjudag. Milan skreið þá inn í átta liða úrslit eftir 3-0 tap. Milan spilaði 4-3-3 í leiknum og Zlatan sagði að sér hefði aldrei liðið vel í leiknum.

"Ég var aldrei í neinum takti við leikinn og það hentaði okkur ekki að spila með þrjá framherja. Hjá stóru félagi eins og Milan má svona ekki gerast. Það er hægt að tapa á ýmsa vegu en þetta var ekki ásættanlegt," sagði Zlatan við sænska Aftonbladet.

"Við erum Milan og gerum meiri kröfur en þetta. Við eigum að vera betri. Við reyndum að róa hvorn annan niður í hálfleik en þetta var ekki auðveld staða því við gerðum aragrúa mistaka. Sem betur fer nýtti Arsenal ekki færin sín í síðari hálfleik.

"Það er mikill léttir að hafa komist áfram. Við verðum að læra af þessum leik."

Svo er spurning hvernig Massimiliano Allegri tekur þessari gagnrýni en hann hefur þegar þurft að þola mikla gagnrýni frá ítölskum fjölmiðlum eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×