Fótbolti

Meistaradeildarævintýri APOEL heldur áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gustavo Manduca fagnar marki sínu.
Gustavo Manduca fagnar marki sínu. Mynd/AP
Meistaradeildarævintýri kýpverska liðsins APOEL Nicosia hélt áfram í kvöld þegar liðið sló Lyon út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir vítakeppni. Báðir leikir liðanna enduðu með 1-0 heimasigri en APOEL. sem var á heimavelli í kvöld, vann vítakeppnina 4-3.

APOEL hafði aldrei komist svona langt áður í keppninni en það var markvörðurinn Dionisios Chiotis sem tryggði sínum mönnum sæti í átta liða úrslitunum með því að verja tvær vítaspyrnur í vítakeppninni.

Lyon vann fyrri leikinn 1-0 á heimavelli en leikmenn APOEL Nicosia sluppu þá með skrekkinn á móti stórsókn franska liðsins.

Gustavo Manduca skoraði eina mark leiksins í kvöld strax á 8. mínútu leiksins og fékk þá gult spjald fyrir að fagna marki sínu. Það reyndist afdrífaríkt því hann fékk sitt annað gula spjald fimm mínútum fyrir lok framlengingarinnar. Hann verður því í banni í átta liða úrslitunum.

Markið nægði til að koma leiknum í framlengingu og svo áfram í vítaspyrnukeppni þar sem að umræddur Dionisios Chiotis varði tvö síðustu víti Lyon og heimamenn fögnuðu gríðarlega í leikslok.

Vítaspyrnukeppnin:

0-1 Kim Källström

1-1 Ailton Jose Almeida

1-2 Lisandro López

2-2 Nuno Morais

2-3 Bafetimbi Gomis

3-3 Nektarios Alexandrou

Dionisios Chiotis varði frá Alexandre Lacazette

4-3 Ivan Trickovski

Dionisios Chiotis varði frá Michel Bastos




Fleiri fréttir

Sjá meira


×