Fótbolti

Wenger: Ekki hægt annað en að vera stoltur af þessari frammistöðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var ánægður með sína menn eftir 3-0 sigur á AC Milan þótt að það hafi ekki dugað til að komast áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. AC Milan vann fyrri leikinn 4-0 og því 4-3 samanlagt.

„Ég sagði við strákana eftir leikinn að það væri ekki hægt annað en að vera stoltur af svona frammistöðu. Við endurheimtum stoltið eftir fyrri leikinn en afar lélegur fyrri leikur varð okkur að falli," sagði Arsene Wenger.

„Við vorum fátækir af miðjumönnum á bekknum í þessum leik og við gáfum eftir í seinni hálfleiknum þegar leikmenn þreyttust. Ég er viss um að við hefðum getað bætt við tveimur eða þremur mörkum í seinni hálfleik en ég hefði getað skipt inn á ferskum miðjumönnum í seinni hálfleiknum," sagði Wenger sem var mjög ánægður með Alex Oxlade-Chamberlain sem lagði upp tvö af þremur mörkum liðsins.

„Oxlade-Chamberlain var veikur í gær og við vissum ekki hvort að hann gæti spilað þennan leik. Við skoðuðum hann í upphitunni og hann var síðan stórkostlegur í leiknum. Það var erfitt fyrir hann að spila inn á miðjunni þar sem að hann er vanur að vera á kantinuum en hann stóð sig mjög vel," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×