Áhyggjur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur af bankakerfinu tóku að vaxa um áramótin 2007/2008 vegna fyrirhugaðra kaupa Kaupþings á hollenska bankanum NIBC. Tilkynnt var um fyrirhuguð kaup bankans á árinu 2007 en eftir áramótin var hætt við kaupin. „Þeir sáu að það gat ekki gengið en þeir gátu ekki snúið út úr þessari aðgerð nema fyrir tilstuðlan opinberra aðila," sagði Ingibjörg.
Hún átti fund með Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins, og Björgvin G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra, í janúar 2008 vegna þessa máls. „Það var þá sem áhyggjurnar af bankkerfinu og stærð þess í þessu litla hagkerfi okkar þar sem var enginn lánveitandi til þrautavara það var þá sem þær fóru að ágerast," sagði Ingibjörg Sólrún. Eftir áramótin hefðu svo allir lagst á árarnar til þess að koma í veg fyrir kaup Kaupþings á bankanum.
Ingibjörg Sólrún segist hafa haft áhyggjur af bankakerfinu í minikreppunni 2006 og óskað eftir utandagskrárumræðu á Alþingi um stöðu bankanna þá. Þar hefði hún meðal annars rætt að álagspróf Fjármálaeftirlitsins á bankana hefðu ekki verið nógu góð. Eftir þessa kreppu hefði hún talið að bankarnir hefðu bætt rekstur sinn, dregið úr krosseignatengslum og álagspróf Fjármálaeftirlitsins verið bætt. Hún hafið því ekki haft sérstakar áhyggjur af bankakerfinu í kosningunum 2007.
Ingibjörg Sólrún segir að það hafi ekki verið sérstakt markmið ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins að stækka bankakerfið. „Við vorum fyrst og fremst að hugsa um alþjóðleg þjónustufyrirtæki eins og Actavis, Marel og Össur," sagði Ingibjörg Sólrún. Þessi fyrirtæki hafi greitt góð laun og skilað miklu í ríkissjóð.
Innlent