Fótbolti

Margrét Lára og félagar í undanúrslit Meistaradeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Mynd/Stefán
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar hennar í þýska liðinu Turbine Potsdam tryggðu sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í dag með 3-0 útisigri á rússneska liðinu Rossiyanka í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum keppninnar. Turbine Potsdam vann fyrri leikinn 2-0 og þar með samanlagt 5-0.

Margrét Lára kom inn á sem varamaður á 71. mínútu leiksins en hún leysti þá af Patriciu Hanebeck. Margrét var nálægt því að skora á 74. mínútu og lagði síðan upp gott færi fyrir sænsku stelpuna Antoniu Göransson á 86. mínútu en Rússarnir björguðu á línu.

Japanska landsliðskonan Yuki Nagasato skoraði tvö mörk en fyrsta mark liðsins skoraði

Þýska landsliðskonan Babett Peter. Turbine Potsdam gerði í raun út um einvígið með því að skora tvö mörk á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiksins.

Þetta er þriðja árið í röð sem Turbine Potsdam kemst svona langt í Meistaradeildinni en undanfarin tvö tímabil hefur liðið spilað til úrslita. Turbine Potsdam varð meistari 2010 og síðan í öðru sæti í fyrra.

Nú er orðið ljóst hvaða fjögur lið komust í undanúrslitin í ár. Turbine Potsdam mætir franska liðinu Lyon í undanúrslitunum en þessi lið hafa mæst í úrslitaleiknum undanfarin tvö ár. Í hinum leiknum mætast enska liðið Arsenal og þýska liðið FFC Frankfurt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×