Fótbolti

Malmö fékk á sig tvö mörk í lokin og féll úr leik í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Björg Helgadóttir stóð sig vel en það dugði ekki til.
Þóra Björg Helgadóttir stóð sig vel en það dugði ekki til. Mynd/Stefán
Sænska liðið LdB Malmö er úr leik í Meistaradeildinni eftir 3-0 tap á móti þýska liðinu 1. FFC Frankfurt í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum keppninnar. Sænsku meistararnir héldu út á móti stórsókn þýska liðsins fram á 66. mínútu og það var farið að stefna í framlengingu þegar Frankfurt skoraði síðan tvö mörk í lok leiksins.

Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir eru því úr leik í Meistaradeildinni þrátt fyrir hetjulega baráttu í þessum tveimur leikjum. Frankfurt vann samanlagt 3-1.

LdB Malmö vann fyrri leikinn 1-0 á sigurmarki Söru Bjarkar en frábær markvarsla Þóru í báðum leikjum var ekki nóg til þess að koma Malmö áfram í undanúrslitin.

Þýska landsliðskonan Kerstin Garefrekes skoraði tvö mörk í leiknum, það fyrra á 66. mínútu og það síðara í uppbótartíma. Varamaðurinn Silvana Chojnowski skoraði annað mark þýska liðsins á 89. mínútu. Öll þrjú mörk þýska liðsins voru skallamörk.

Frankfurt var mun sterkara liðið í þessum leik og sigurinn var sanngjarn. Þóra fékk á sig tíu skot í leiknum og varði sjö þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×