Fótbolti

Mourinho á ekki von á því að mæta Chelsea í úrslitaleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid.
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid. Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho segir að honum þyki ólíklegt að Real Madrid og hans gamla félag, Chelsea, muni mætast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vor.

Bæði lið tryggðu sér sæti í undanúrslitum keppninnar í kvöld. Real Madrid mætir Bayern München í sinni undanúrslitarimmu en Chelsea þarf að etja kappi við Spánar- og Evrópumeistara Barcelona.

„Það gæti farið svo að Bayern eða Barcelona komist áfram. Ég á bara ekki von á því að Real Madrid mætir Chelsea og við vitum öll ástæðuna fyrir því," sagði Mourinho en hann hefur ítrekað gagnrýnt dómgæslu í leikjum sinna manna gegn Barcelona og sagt hana hliðholla Börsungum.

Barcelona tryggði sér í gær sæti í undanúrslitunum með 3-1 sigri á AC Milan eftir að hafa fengið umdeilda vítaspyrnu í stöðunni 1-1.

Mourinho sagði einnig að hann ætlaði sér að vera áfram hjá Real Madrid eftir tímabilið. „Einhver sagði að ég væri búinn að semja við Manchester City og það er alrangt. Ég er samningsbundinn Real í tvö ár til viðbótar. Allir vita að ég elska England og ég kem aftur einn daginn. En enginn veit hvenær það verður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×