Enski boltinn

Gylfi Þór: Vonandi fyrstu verðlaunin af mörgum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar einu marka sinna með Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar einu marka sinna með Swansea. Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson segir að það hafi komið sér í opna skjöldu að hafa verið útnefndur leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Hann fékk fregnirnar á æfingu með Swansea í morgun.

„Þetta er mikill heiður en þessu bjóst ég alls ekki við," sagði Gylfi þegar Vísir heyrði í honum nú í kvöld. „Það var skemmilegt að byrja daginn á þennan máta. Okkur var tilkynnt um þetta í upphafi æfingarinnar og voru félagarnir mjög ánægðir með að fá þessar fréttir."

Gylfi varð um leið fyrsti leikmaður Swansea til að hljóta þennan heiður en einnig fyrsti Íslendingurinn. „Það er auðvitað mjög gaman að því og vonandi verða þetta bara fyrstu verðlaunin af mörgum. Það eru margir góðir leikmenn sem hafa fengið þau í gegnum tíðina."

Hann segir að verðlaun eins og þessi hjálpi til við að auka sjálfstraustið. „Það er núna í góðu lagi enda hefur gengið vel að undanförnu, bæði mér og liðinu öllu. Nú verður maður bara að halda áfram og einbeita sér að því að hjálpa Swansea að vinna leiki."

Swansea mætir næst Newcastle á heimavelli sínum á föstudaginn langa. „Ég mun reyna mitt besta eins og alltaf. Ég á enn eftir að skora á heimavelli og væri auðvitað gaman að fá að upplifa það líka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×