Fótbolti

Real Madrid ekki í vandræðum með Kýpverjana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Real Madrid skoraði fimm mörk gegn APOEL frá Kýpur í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld og tryggði sér sæti í undanúrslitum keppninnar með 8-2 samanlögðum sigri.

Eftir 3-0 sigur Spánverjanna í fyrri leiknum reiknuðu fáir með því að lið APOEL yrði mikil fyrirstaða fyrir Madrídarrisana - sem kom svo á daginn.

Cristiano Ronaldo og Kaka komu Real tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik og þannig var staðan þar til um stundarfjórðungur var til leiksloka. Þá opnuðust flóðgáttirnar.

Gustavo Manduca náði að minnka muninn fyrir APOEL en Ronaldo skoraði öðru sinni og Jose Callejon svo fjórða mark Real áður en Esteban Solari skoraði annað mark Kýpverjanna úr vítaspyrnu.

Angel Di Maria innsiglaði svo sigur Real Madrid á 84. mínútu og þar við sat.

Real Madrid mætir nú Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en þeir leikir fara fram dagana 17. og 25. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×