Enski boltinn

Gerrard og Rooney hafa oftast fengið verðlaunin sem Gylfi fékk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Mynd/AFP
Steven Gerrard hjá Liverpool og Wayne Rooney hjá Manchester United hafa oftast verið kosnir leikmenn mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni eða fimm sinnum hvor. Gylfi Þór Sigurðsson varð í dag fyrsti íslenski leikmaðurinn í sögunni til að vera kosinn besti leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni en enginn þótti standa sig betur í mars en Gylfi.

Átta leikmenn hafa hlotið þessi verðlaun fjórum sinnum eða oftar en þeir sem hafa vorið kosnir fjórum sinnum eru: Dennis Bergkamp, Thierry Henry, Frank Lampard, Cristiano Ronaldo, Paul Scholes og Alan Shearer.

Það vekur athygli að Ryan Giggs hefur aðeins tvisvar fengið þessi verðlaun þrátt fyrir að spila stórt hlutverk í ensku úrvalsdeildinni frá því að hún var stofnuð. Giggs var kosinn bestur í ágúst 2006 og í febrúar 2009.

Það hafa fjórir Norðurlandabúar fengið þessi verðlaun áður, Svíarnir Freddie Ljungberg (apríl 2002) og Johan Elmander (nóvember 2010) og Finnarnir Sami Hyypiä (nóvember 1999) og Mikael Forssell (mars 2004).

Gylfi Þór er áttundi leikmaðurinn sem hlýtur þessi verðlaun í vetur en enginn leikmaður hjá velsku liði hefur áður verið kosinn bestur í einum mánuði í ensku úrvalsdeildinni.

Ísland er 30. þjóðin sem eignast besta leikmann mánaðarins en Englendingur hefur 80. sinnum orðið fyrir valinu og þá hafa Frakkar fengið þessi verðlaun fimmtán sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×