„Þegar menn gera sig sekan um peysutog inn í teignum á að dæma vítaspyrnu," sagði Pep Guardiola, stjóri Barcelona, eftir 3-1 sigur sinna manna á AC Milan í kvöld.
Í stöðunni 1-1 var Barcelona dæmt umdeilt víti er Alessandro Nesta þótti toga niður Sergio Busquets í teignum þegar Börsungar tóku hornspyrnu.
Ítalarnir voru afar ósáttir við dóminn og sóknarmaðurinn Zlatan Ibrahimovic sagði að hann hefði eyðilagt leikinn. En Guardiola sagði ákvörðun dómarans rétta.
„Í fyrri leiknum áttum við að fá tvær augljósar vítaspyrnur en við sögðum ekki neitt um það," bætti hann við.
Guardiola lofaði frammistöðu sinna manna. „Við spiluðum með þrjá í vörn í fyrri hálfleik til að skapa fleiri færi. Á endanum áttum við 21 skot að marki en Milan þrjú."
„Við vörðumst vel og þegar við náðum 2-1 forystu bættum við fjórða manninum við varnarlínuna til að stjórna betur leiknum."
Messi skoraði tvívegis í leiknum og hefur skorað fjórtán Meistaradeildarmörk á tímabilinu. Það er met.
„Lionel Messi er yndislegur leikmaður og það er okkar mikla lán að hafa hann í okkar röðum," sagði Guardiola.
Barcelona er nú komið í undanúrslit keppninnar fimmta árið í röð. Þrátt fyrir það vill Guardiola ekki viðurkenna að hans menn séu sigurstranglegastir í keppninni. „Það tel ég ekki. Bayern München er enn með og Real Madrid ílíka. Við höfum unnið Meistaradeildina tvisvar á síðustu þremur árum en það erfiðasta í íþróttum er að viðhalda stöðugleika."
Fótbolti