Erlent

Eiginkonum og dætrum Osama bin Laden vísað úr landi

Dómstóll í Pakistan hefur dæmt fimm fjölskyldumeðlimi Osama bin Laden í stofufangelsi og síðan til brottvísunar frá Pakistan.

Hér er um að ræða allar þrjár eiginkonur bin Laden og tvær af dætrum hans sem eru 17 og 21 árs gamlar. Þessar konur hafa verið í haldi yfirvalda frá því að ein af sérsveitum bandaríska hersins réðist á heimili bin Laden í Abbottabad í fyrra og felldi hann.

Eiginkonurnar þrjár hafa viðurkennt að hafa komið ólöglega til Pakistan og að hafa dvalið ólöglega í landinu. Þar fóru þær huldu höfði ásamt eiginmanni sínum árum saman.

Dómstóllinn dæmdi allar konurnar fimm í stofufangelsi í 45 daga en síðan verður þeim vísað úr landinu.

Ein eiginkvennanna er frá Jemen og stjórnvöld þar hafa fallist á að taka við henni. Hinar eiginkonurnar tvær eru frá Saudi Arabíu en þar eru stjórnvöld mjög treg til að fá þær til landsins að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×