Fótbolti

Mourinho: Það bjóst enginn við sigurmarki í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid.
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, þurfti að sætta sig við 1-2 tap á móti Bayern München í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Bæjarar tryggðu sér sigurinn með marki Mario Gomez á 90. mínútu.

„Seinna markið þeirra kom gegn gangi leiksins. Við vorum betra liðið í fyrri hálfleiknum en ég var ekki ánægður með hvernig seinni hálfleikurinn spilaðist. Það bjóst enginn við sigurmarki í lokin en svona er fótboltinn. Þeir skoruðu og því bíða okkar allt aðrar kringumstæður í seinni leiknum," sagði Jose Mourinho.

Hann var spurður út í það að þurfa að spila við Barcelona um helgina á milli svona mikilvægra leikja í Meistaradeildinni.

„Ég vil frekar hafa þetta eins og hjá okkur heldur en hjá Bayern. Þeir eru átta eða níu stigum á eftir Dortmund. Við erum að berjast um annan titil og hann skiptir okkur miklu máli líka. Við vitum að þetta hjálpar okkur ekki fyrir seinni leikinn en þetta er samt betra svona," sagði Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×