Fótbolti

Mourinho: Svona er bara fótboltinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho í leiknum í kvöld.
Jose Mourinho í leiknum í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, hélt haus og gott betur þegar hann hitti á blaðamenn eftir leik sinna manna gegn Bayern München í kvöld.

Útlitið var bjart fyrir Madrídinga í upphafi leiksins gegn Bayern í kvöld en liðið komst 2-0 yfir með tveimur mörkum frá Cristiano Ronaldo. En Bæjarar neituðu að gefast upp, skoruðu og báru svo sigur úr býtum í vítaspyrnukeppni.

„Ég hef það ágætt. Svona er fótboltinn. Maður verður að halda jafnvægi, hvort sem maður tapar eða vinnur," sagði Mourinho í kvöld.

„Leikmennirnir voru frábærir. Frammistaða þeirra var mjög góð og þeirra vegna finnst mér súrt í broti að þeir fá ekki að upplifa stórkostlegan úrslitaleik í Meistaradeildinni."

„Þið munið að fyrir tveimur árum var ég hér á þessum velli með Inter. Við fögnuðum og Bayern grét. Fótboltinn getur verið sársaukafullur og það er oft tilfellið."

Cristiano Ronaldo lét verja frá sér víti í vítaspyrnukeppninni en Mourinho vildi ekki gagnrýna hann, né heldur segja að hann væri verri en Lionel Messi, leikmaður Barcelona.

„Ronaldo er frábær. Ég vil ekki bera hann saman við Messi enda mjög ólíkir leikmenn. En mér finnst að Cristiano hafi verið betri í ár en Messi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×