Fótbolti

Guardiola: Messi verður lengi að jafna sig

Lionel Messi leikmaður Barcelona var miður sín eftir að lið hans féll úr keppni í Meistaradeild Evrópu í gær.
Lionel Messi leikmaður Barcelona var miður sín eftir að lið hans féll úr keppni í Meistaradeild Evrópu í gær. Getty Images / Nordic Photos
Lionel Messi leikmaður Barcelona var miður sín eftir að lið hans féll úr keppni í Meistaradeild Evrópu í gær. Argentínumaðurinn klúðraði vítaspyrnu í síðari hálfleik í stöðunni 2-1 á Nou Camp gegn enska liðinu Chelsea og hann var ekki til staðar á fundi með fréttamönnum eftir leik.

Skot Messi úr vítaspyrnunni fór í þverslá og Messi átti einnig skot síðar í leiknum sem fór í markstöngina. Fernando Torres skoraði fyrir Chelsea undir lok leiksins og tryggði Chelsea jafntefli og 3-2 sigur samanlagt.

Pep Guardiola þjálfari Barcelona sagði eftir leikinn að Messi yrði án efa lengi að jafna sig eftir þessa niðurstöðu. „Hann er það mikill keppnismaður að það mun taka tíma fyrir hann að jafna sig eftir þetta. Þessi íþrótt er þannig að stundum brosir maður eftir leik og stundum líður manni ekki vel," sagði Guardiola en hann leyndi ekki vonbrigðum sínum að komast ekki með lið sitt í úrslitaleik Meistaradeildarinnar til þess að verja Evrópumeistaratitilinn.

„Ótrúleg sorg var það fyrsta sem ég upplifði í leikslok, en við verðum að sætta okkur við að annað lið fer í úrslitaleikinn. Og við verðum að undirbúa okkur betur fyrir næsta tímabil. Það verður okkar hlutskipti að horfa á úrslitaleik Meistardeildarinnar í sjónvarpi og ég óska Chelsea til hamingju með frábæran varnarleik," sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×