Fótbolti

Terry baðst afsökunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
John Terry, fyrirliði Chelsea, bað liðsfélaga sína afsökunar fyrir að hafa brugðist þeim í leiknum gegn Barcelona í kvöld.

Þrátt fyrir að vera manni færri og 2-0 undir tókst Chelsea að skora tvívegis og tryggja sér þar með sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Terry fékk rauða spjaldið fyrir að reka hnéð í Alexis Sanchez, leikmann Barcelona, seint í síðari hálfleik þegar staðan var 1-0 fyrir Börsunga. Stuttu síðar skoruðu heimamenn öðru sinni og útilitið orðið ansi dökkt fyrir þá ensku.

Terry sagði að um óviljaverk hafi verið að ræða. „Ég hef séð þetta aftur í sjónvarpinu og þetta lítur ekki vel út. Ég er ekki sá leikmaður sem ætlar sér að meiða annan leikmann viljandi," sagði Terry eftir leikinn.

„Ég hefði ekki átt að lyfta hnénu en vonandi vita þeir sem þekkja mig að svona myndi ég aldrei gera."

Terry verður nú í leikbanni í úrslitaleiknum í München þann 19. maí næstkomandi. „Það eru mér mikil vonbrigði en ég samgleðst strákunum. Það var ótrúlegt að ná þessum úrslitum manni færri. En mér finnst að ég hafi brugðist þeim. Ég hef beðið þá afsökunar og ég vil líka biðja stuðningsmenn okkar afsökunar."

„Chelsea á skilið að vera í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Strákarnir voru frábærir og ég vona að þetta atvik verði ekki til þess að draga athyglina frá þeirra afreki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×