Innlent

Lögmaður neitar að afhenda nöfn þeirra sem fóru í sílíkonaðgerð

Skattrannsóknastjóri hefur farið fram á það fyrir dómsstólum að lögmaður kvenna, sem fóru í sílíkonaðgerð hjá Jens Kjartanssyni, afhendi nöfn kvennanna. Lögmaðurinn neitar að afhenda persónugögn vegna trúnaðar við skjólstæðinga.

Krafa Skattrannsóknarstjóra var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag, og munnlegur málflutningur er á dagskrá dómsins á föstudag.

Það var í lok síðasta árs sem hið svokallaða PIP-mál kom upp. Þá varð ljóst að Jens Kjartansson lýtalæknir hafði sett gallaða sílíkonpúða í fjölda kvenna. Í framhaldi af málinu hófst rannsókn skattayfirvalda á bókhaldi Jens, en fram hafa stigið konur sem segjast hafa greitt honum svart fyrir lýtaaðgerðir.

Saga Ýrr Jónsdóttir er lögmaður tuga kvenna sem ætla í mál við Jens, og það eru nöfn og kennitölur þessara kvenna sem skattrannsóknastjóri vill fá, vegna rannsóknar sinnar á Jens.

a

Skattrannsóknari krefst þessara gagna með vísan í lög um tekjuskatt þar sem segir að öllum sé skylt að veita skattayfirvöldum þær upplýsingar sem óskað er vegna skattarannsóknar.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur ekki áður reynt á þessi ákvæði á Íslandi gagnvart lögmönnum, en þagnarskylda þeirra gagnvart skjólstæðingum sínum er afar rík.

Hvorki lögmaðurinn né Skattrannsóknastjóri vildu tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×