Fótbolti

Þjálfari Bayern: Drogba er ekki bara góður leikmaður, líka frábær leikari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba.
Didier Drogba. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jupp Heynckes, þjálfari Bayern München, hrósaði Didier Drogba ekki bara fyrir knattspyrnuhæfileika heldur einnig fyrr leikarahæfileika á blaðamannafundi fyrir úrslitaleik Bayern og Chelsea í Meistaradeildinni sem fer fram í München á morgun.

Didier Drogba er alltaf bestur í úrslitaleikjum hjá Chelsea og það búast flestir við því að hann verði erfiður við að eiga fyrir Bayern-vörnina í þessum leik.

„Drogba hefur í mörg ár verið einn besti framherjinn í ensku úrvalsdeildinni og það er enginn vafi á því að hann er stórhættulegur og getur skorað hvenær sem er," sagði Jupp Heynckes, þjálfari Bayern.

„Stundum fer hann þó yfir strikið því hann getur líka verið frábær leikari inn á vellinum," bætti Heynckes við.

Jupp Heynckes telur að Roberto Di Matteo eigi að fá tækifæri til að halda áfram með Chelsea-liðið hvernig sem fer í úrslitaleiknum á morgun.

„Við megum ekki gleyma því að hann fór með Chelsea alla leið í úrslitaleikinn og gerði það af yfirvegun. Það lítur út fyrir að hann sé mjög flott týpa með fulla stjórn á öllu. Hann hefur skref frá skrefi náð upp betra samkomulagi milli leikmanna og búið til sátt og samlyndi," sagði Heynckes og bætti við:

„Di Matteo hefur skilað stórkostlegu starfi og ég get ekki séð að það skipti einhverju máli hvernig fer á morgun. Ég myndi fastráða hann ef ég væri Abramovich," sagði Jupp Heynckes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×